fbpx Skip to main content

1948

Sögu Rafgeymasölunnar má í raun rekja allt aftur til ársins 1948. Það ár var fyrirtækið Rafgeymir hf. stofnað í Hafnafirði, en fyrirtækið framleiddi rafgeyma fyrir Íslenskan markað.

Stofnendur voru Jón Magnússon, Axel Kristjánsson og fleiri en Jón hafði komið með þekkingu á framleiðslu rafgeyma frá Danmörku. Starfsemin hófst í litlu rými í húsi við Lækjargötu í Hafnarfirði í húsi sem jafnan var kallað Steinullarhúsið, en þar var einnig framleidd steinull.

Fyrirtækið starfaði í nokkur ár við framleiðslu á KENTAR rafgeymum frá svo gott sem grunni. Hráefni eins og blý var flutt inn í 50 kg. stykkjum frá löndum í Evrópu og plöturnar í rafgeymana voru steyptar í litil mót.

1962

Árið 1962 flutti Rafgeymir Hf. í nýtt húsnæði að Dalshrauni 1, það húsnæði hefur nú verið rifið og nýtt og glæsilegt húsnæði byggt í staðinn. Á þessum árum var í gildi innflutningsbann á rafgeymum, eins og fleiri vörum, sem menn álitu að hægt væri að framleiða hér á landi.

1970

Í kringum 1970 voru innflutningshöft afnumin og í kjölfarið hóf innflutningur erlendra rafgeyma úr plasti að aukast sem þrengdi umtalsvert að íslensku framleiðslunni sem ekki var samkeppnishæf í verði.

1982

Árið 1982 keypti Ármann Sigurðsson sem starfað hafði hjá Rafgeymi hf. rekstur fyrirtækisins og gaf því nafnið Rafgeymasalan, ehf. og hefur það verið rekið undir því nafni síðan. Á þessum tíma hafði framleiðsla rafgeyma lagst af hér á landi, en þegar best lét veitti þessi atvinnugrein fimm til sex mönnum atvinnu í Hafnafirði. Litlar heimildir eru til um þessa starfsemi hér á landi og þeir sem störfuðu við þessa framleiðslu eru fallnir frá, en þekkingin hefur færst mann fram af manni innan fyrirtækisins.

Í atvinnusögu landsmanna verður kaflinn um innlenda rafgeymaframleiðslu þannig fremur snubbóttur, en sem betur fer er þó enn er til KENTÁR rafgeymir sem var smíðaður í Rafgeymasölunni og stendur þar upp í hillu.

1998

Árið 1998 flutti fyrirtækið í nýtt húsnæði að Dalshrauni 17 í Hafnafirði, en þar er öll aðstaða fyrir starfsemina til fyrirmyndar.

Dagurinn í dag

Megináhersla Rafgeymasölunnar ehf. síðustu áratugina hefur verið á innflutning og sölu rafgeyma auk framúrskarandi þjónustu. Rafgeymasalan ehf. hefur ævinlega kappkostað að bjóða upp á vandaða geyma frá traustum framleiðendum. eins og Varta, Berga og Danbrit.
Eftir fráfall Ármanns Sigurðssonar árið 2016 keypti sonur hans Kristján Ármansson fyrirtækið og hefur rekið óbreytt síðan.