Um fyrirtækið

Árið 1948 var Rafgeymir Hf. stofnað í Hafnafirði

Stofnendur voru Jón Magnússon, Axel Kristjánsson og fl en Jón hafði komið með þekkinguna frá Danmörku. Fyrirtækið var í litlu plássi í húsi við Lækinn, sem í daglegu tali var kallað Steinullarhúsið vegna þess að þar var einnig framleidd steinull. Fyrirtækið starfaði í nokkur ár við framleiðslu á KENTAR rafgeymum. Vinnan var fólgin í því að búa til rafgeyma frá grunni eins nærri því og komist var. Hráefni eins og blý í 50 kg. stykkjum var flutt inn frá löndum í Evrópu. Plöturnar í rafgeymana voru steyptar í litlu móti. Árið 1962 flutti Rafgeymir Hf. í nýtt húsnæði, Dalshraun 1, það húsnæði hefur nú verið rifið og nýtt og glæsilegt húsnæði byggt í staðinn.

Á þessum árum var innflutningsbann á rafgeymum

Á þessum árum var innflutningsbann á rafgeymum, eins og fleiri vörum, sem menn álitu að hægt væri að framleiða hér á landi. Í kringum 1970 voru þessi höft afnumin og menn fóru að hugsa sér til hreyfings um innflutning á erlendum rafgeymum. Þegar svo bættist við að fluttir voru inn geymar úr plasti þrengdist mjög um innlendu geymana, sem stóðust ekki samkeppni við þessa nýju rafgeyma.

Enn er til rafgeymir sem var gerður hér á landi

Enn er til rafgeymir sem var gerður hér á landi og stendur síðasti rafgeymir sem framleiddur var á Íslandi uppi í hillu hjá okkur í Rafgeymasölunni.

1. júní árið 1982 keypti Ármann Sigurðsson núverandi eigandi rekstur Rafgeymis Hf. en hann hafði starfað þar frá árinu 1957. Hann gaf fyrirtækinu nafnið Rafgeymasalan ehf og hefur það verið rekið undir því nafni síðan.

Árið 1985 hóf fyrirtækið innflutning á austurískum BAREN rafgeymum, sem það er enn að selja í dag

Í júlí 1998 flutti fyrirtækið í nýtt húsnæði að Dalshrauni 17 í Hafnafirði.

Fyrir 5 árum hóf fyrirtækið innflutning á þunnum sólarrafhlöðum frá fyrirtækinu Gaja Sol í Danmörku og hefur reynsla af þeim verið mjög góð.

Þetta er í fáum orðum saga Rafgeymasölunnar, en saga rafgeymaframleiðslu á Íslandi verður sjálfsagt aldrei skrifuð, en var á sínum tíma atvinnugrein sem veitti 5-6 mönnum atvinnu í Hafnafirði.